Sýnatöku lokið
Tekin hafa verið hátt í tvö hundruð sýni, frá 61 vallarsvæði.
Fimmtudaginn 3. nóvember 2022 lauk sýnatöku úr öllum golfvöllum innan Golfsambands Íslands, en svæðin eru alls 61. Alls hafa verið tekin hátt í tvö hundruð sýni, en segja má að hvert sýni samanstandi af tveimur sýnum, kjarnasýni og rúmþyngdarsýni. Pokarnir eru því hátt í 400.
Kjarnasýni samanstendur af fimm kjörnum sem teknir eru með þar til gerðum bor, í hring með 3 m radíus. Rúmþyngdarsýni er tekið með sívalningi innan úr holu sem tekin er með stunguspaða. Tilgangur þess er að vita hve mikill jarðvegsmassi er í hverju rúmmáli, svo hægt sé að framreikna niðurstöðu kjarnasýnanna upp í ákveðið flatarmál.
Sýnin voru tekin þvert úr brautum og slegnum karga golfvallanna, þvert á aldurs- og jarðvegsflokka, að undangenginni greiningu á hverju svæði og viðtölum við lykilstarfsfólk vallanna, eftir atvikum.
Sýnin hafa nú verið afhent Landbúnaðarháskóla Íslands til greiningar. Niðurstaðna er að vænta fyrir árslok og hefst þá vinna við að túlka þær, framreikna m.t.t. korta sem gerð hafa verið af völlunum og setja í samhengi.
Sýnataka hálfnuð
Jón Guðmundsson, lektor við LBHÍ, tekur sýni úr einni af brautum Strandarvallar, hjá Golfklúbbi Hellu Rangárvöllum, ásamt Maríu Svavarsdóttur, einnig frá LBHÍ. Ljósmynd: Edwin Roald.
Sýnum hefur nú verið safnað úr 30 golfvöllum af þeim 61 sem tilheyra rannsókninni. Landbúnaðarháskóli Íslands hefur gert það á ferðum sínum um landið, vegna ýmissa verkefna. Þannig er kolefnisspori verkefnisins haldið í skefjum, en stefnt er að því að kolefnisjafna það í heild sinni með framlögum í kolefnissjóði.
Tekin hafa verið sýni úr flestum landsbyggðarvöllum, að vestfirsku völlunum frátöldum. Einnig á eftir að safna jarðvegssýnum úr golfvöllunum á höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesi, Borgarfirði og Árnessýslu. Semsagt, völlum sem tekur hámark um eina klukkustund að aka til frá Reykjavík. Markmiðið er að hefjast handa um leið og frost fer úr jörðu og ljúka sýnatökunni allri árið 2022.
Drög að öllum vallarkortum tilbúin - Heimaey slegin í viku hverri
Skjáskot úr skiptingu Hvaleyrarvallar hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði, í fjóra almenna jarðvegsflokka. Þeir eru Histosol, Histic andosol, Brown andosol og Vitrisol. Þessi kort eru m.a. unnin með að lesa í loftmyndir og ræða við vallarstjóra. Þessi greining nýtist sem grundvöllur sýnatökuáætlunar, en greining sýnanna sker síðan endanlega út um eðli jarðvegs á svæðunum.
Lokið var við kortadrög af hverjum golfvelli í september 2021. Golfvallarsvæðin eru 61 talsins og nemur heildarflatarmál þeirra um 2.200 hekturum, þ.e. ef mæld eru athafnasvæði vallanna, út að girðingu, ef þannig má að orði komast. Á hinn bóginn er flatarmál sleginna svæða, eða grassvæða sem fá reglubundið viðhald, og þá aðallega slátt, um 1.100 hektarar, eða helmingur af heildarflatarmáli athafnasvæðanna.
Hér er átt við brautir og sleginn karga. Brautir eru almennt slegnar tvisvar eða þrisvar í viku, og karginn u.þ.b. einu sinni. Leitun er að þekkti landstærð til samanburðar, en í því sambandi við hugsanlega nota Heimaey, sem er um 1.340 hektarar. Ef litið er framhjá fjallstoppum, þá má hugsa sér að golfhreyfingin á Íslandi slái svæði sem nemur allri Heimaey, í viku hverri.
Aðferðir prófaðar á vettvangi
Jón Guðmundsson, lektor við LBHÍ, skoðar og ræðir jarðveg á Svarfhólsvelli á Selfossi, ásamt Maríu Svavarsdóttur, einnig frá LBHÍ, og Gunnari Marel Einarssyni frá Golfklúbbi Selfoss, til vinstri. Ljósmynd: Edwin Roald.
Í nóvember 2020 var hluti golfvalla í prufukortagerð skoðaður, einkum til að gefa starfsfólki LBHÍ færi á að kynnast viðfangsefninu og eðli golfvalla betur. Vettvangsferðin var hópnum lærdómsrík. Tekin voru prufusýni og aðferðir reifaðar, m.a. hvernig haga beri sýnatöku sumarið 2021 þannig að verkefnið verði sem raunhæfast og gæðin mest, hvort tveggja m.t.t. kostnaðar- og tímaáætlunar.
Auk þeirra meginsýna sem tekin eru til að mæla kolefnisstöðu jarðvegs voru einnig tekin rúmþyngdarsýni (e. bulk density). Niðurstaða þess segir til um jarðvegsmassa í ákveðnu rúmmáli og er nauðsynleg til uppreiknings svo framsetja megi niðurstöður meginsýnanna í samhengi flatarmáls, s.s. sem fjölda tonna kolefnis á hvern hektara lands.
Prufukortlagning vel á veg komin
Svona líta golfvallakortin út á fyrstu stigum innfærslu í gagnagrunna LBHÍ. Mynd birt með leyfi LBHÍ.
Carbon Par felur í sér kortlagningu á öllum golfvöllum innan vébanda Golfsambands Íslands. Í október 2020 var ráðist í að kortleggja þrjá velli í fyrstu lotu, m.a. til að prófa og þróa aðferðir áður en ráðist yrði í að kortleggja alla hina sextíu vellina. Vellirnir sem nú verða kortlagðir eru Urriðavöllur hjá Golfklúbbnum Oddi í Garðabæ, Þorláksvöllur hjá Golfklúbbi Þorlákshafnar og Svarfhólsvöllur hjá Golfklúbbi Selfoss.
Rétt er að geta þess að verkefnisstjóri tengist öllum þremur völlunum á þann hátt að hann veitir nú, eða hefur nýlega veitt, ráðgjöf við frekari þróun þeirra, en vegna þess voru ýmis kortgögn þegar tiltæk og þannig unnt að fresta kostnaði í verkefninu. Einnig var reynt að velja velli með hæfilega ólíkan jarðveg og í viðunandi fjarlægð frá starfsstöðvum verkefnisstjóra og LBHÍ m.t.t. fyrirhugaðra vettvangsferða í tengslum við þessa prófun.
Kortagerðin fer þannig fram dregnar eru upp útlínur svæða með ólíka landgerð, yfirborð, grashæð og jarðveg, eftir stafrænum, hnitsettum loftmyndum í AutoCad-hugbúnaði. Flatarmál þessara svæða eru síðan mæld í sama hugbúnaði, s.s. teigar, flatir og brautir á golfvellinum annars vegar, sem og ýmsar gerðir lands utan um og milli golfbrauta hinsvegar. Sjálf kortin og flatarmáls-tölfræðin er þá send til LBHÍ, sem færir gögnin inn og samkeyrir við gagnagrunna sína, sem heita ÝMIR OG IGLUD, en þar er að finna gildi úr fyrri sýnatökum á landsvísu.
Að lokinni þessari kortlagningu er hægt að þróa áætlun yfir kerfisbundna sýnatöku á golfvöllunum svo hægt sé að meta kolefnisstöðu þeirra. Stefnt er að því að sýnataka fari að mestu fram sumarið 2021.
Golfvellir GSÍ og gagnagrunnur LBHÍ
Hvít og græn merki tákna golfvelli, en fyrirliggjandi jarðvegssýni eru merkt með rauðgulum punktum. Algengt er að mörg þeirra séu tekin kerfisbundið innan stærra svæðis. Í slíkum tilvikum birtast punktarnir hér eins og þrjár samliggjandi, láréttar línur. Mynd birt með leyfi LBHÍ.
Þörf er á samanburðarsýnum svo unnt verði að meta kolefnisstöðu golfvallanna og hve mikið byggst hefur upp af kolefni í eða undir golfbrautunum sjálfum síðan viðkomandi völlur varð til. Hér koma gagnagrunnar Landbúnaðarháskóla Íslands að góðum notum, en þeir hafa að geyma niðurstöður jarðvegssýna vítt og breitt um landið. Meðfylgjandi mynd sýnir staðsetningu jarðvegssýna sem greind hafa verið og skráð í gagnagrunnana, sem og allra golfvalla innan vébanda GSÍ, sem ætlunin er að fái mat á kolefnisstöðu. Taka þarf ný sýni á svæðum þar sem lítið sem ekkert er til af fyrirliggjandi sýnum.