Carbon Par
Mat á kolefnisstöðu landnýtingar íslenskra golfvalla
Samantekt
Hluti golfvalla hefur verið gerður með þurrkun á mýrum eða nýtingu á votlendi sem áður hafði verið ræst fram. Losun CO2 frá golfvöllum á lífrænum jarðvegi getur því verið mikil. Á hinn bóginn geta vellir á steindum jarðvegi bundið kolefni (C). Rannsóknir sýna að slegið gras getur bundið meira C en óslegið og að tíðari sláttur en almennt þekkist, sem verður mögulegur með tilkomu sjálfvirkra sláttuvéla, getur stuðlað að hraðari uppsöfnun C í jarðvegi. Metin verður C-staða landnýtingar íslenskra golfvalla til að leggja grunn að mælanlegum framförum golfhreyfingarinnar á því sviði.
Samhengi
Loftslagsbreytingar eru meðal stærstu áskorana samtímans. Aukning gróðurhúsalofttegunda, þ.á.m. CO2, veldur hækkandi hitastigi og sjávarstöðu, hnignandi loftgæðum o.fl. Binding kolefnis er lykilatriði í baráttunni gegn loftslagsvánni. Til bindiaðferða teljast m.a. skógrækt, ýmsar tækninýjungar eins og niðurdæling á CO2 og breytingar á landnýtingu. Meðal þeirra síðasttöldu má telja endurheimt votlendis, eða viðleitni til að komast hjá beinni nýtingu eða þurrkun votlendis, en hún losar CO2 út í andrúmsloftið.
Almennt má líta á golfvelli sem stóra landnotendur. Gerð hluta þeirra hefur haft í för með sér þurrkun votlendis eða nýtingu á mýrum sem áður höfðu verið ræstar fram. Losun frá golfvöllum á lífrænum jarðvegi getur því verið mikil, en á hinn bóginn geta vellir á steinefna- eða þurrlendisjarðvegi bundið kolefni.
Eðli íslenskrar eldfjallajarðar er að hún bindur meira kolefni en allur annar þurrlendisjarðvegur á jörðinni og rannsóknir sýna að bindingin er bæði ör og varanleg (Ólafur Arnalds 2018). Eins og plöntur almennt, þá getur gras bundið kolefni. Enn fremur, þá geta slegnar graslendur, eða grasflatir og vellir, bundið meira kolefni en óslegið (Bandaranayake, 2003).
Augljóslega ber að taka mið af kolefnisfótspori umsjónarinnar, þ.á.m. losun frá sláttuvélum, orkuþörf við dælingu vatns til vökvunar og framleiðsla og flutningur á aðföngum eins og fræi og áburði. Eigi að síður, þá birtist okkur nýr veruleiki með tilkomu nýrrar tækni í þróun rafknúinna, sjálfvirkra sláttuvéla og í nýtingu á endurnýjanlegri orku, m.a. með litlum vindmyllum og sólarrafhlöðum.
Einnig gefur rannsókn Pirchio o.fl. (2018) til kynna að tíðari sláttur, sem verður loks mögulegur með tilkomu sjálfvirkra véla, getur hraðað kolefnisbindingu, eða stuðlað að sams konar bindingu og áður en með minni næringarþörf en áður. Tilgátan er að þetta verði mögulegt, ekki síst þar sem að niðurbrot hins slegna grass, sem skilið er eftir og skilað ofan í svörðinn/jarðveginn, verður hraðara og jafnara vegna þess hve miklu minna er slegið af hverju grasblaði hvert sinn. En hver er þá kolefnisstaða golfvalla út frá landnýtingu? Þessar upplýsingar, sem liggja ekki fyrir, eru þarfar sem útgangspunktur við gerð mælikvarða sem golfhreyfingin getur síðan stuðst við til að bæta sig á þessu sviði.
Markmið
Til stendur að svara eftirtöldum rannsóknarspurningum: a) Hver er losun CO2 og kolefnisbinding frá landnýtingu uppbyggðra og viðhaldinna svæða á íslenskum golfvöllum, samanlögð og sundurliðuð eftir völlum? b) Er hægt að þróa kortlagninguna og matsferlið frekar en lýst er í þessari umsókn? Ef já, þá hvernig? c) Hvað þarf til, í peningum, tíma o.fl., til að framkvæma sambærilegt mat á hinum Norðurlöndunum? d) Gefur einhver merkjanleg þróun til kynna hvernig golfvellir geta almennt bætt kolefnisstöðu landnýtingar sinnar auðveldlega, án þess að hafa neikvæð áhrif á upplifun notenda? Ef já, þá hvernig?
Aðferðir
Kolefnisstaða landnýtingar á öllum golfvöllum innan vébanda Golfsambands Íslands verður metin með kortlagningu, samkeyrslu við jarðvegsgagnagrunna, sýnatöku, viðtölum og greiningu. Útlínur eða jaðrar mismunandi svæða, s.s. brauta og slegins karga, verða dregnar upp í AutoCad Map eftir undirliggjandi stafrænum og hnitsettum loftmyndum, þ.á.m. gervitunglamyndum með veittu, góðfúslegu leyfi frá Landmælingum Íslands.
Eftir þörfum verður rætt við umsjónarfólk golfvalla til samráðs og staðfestingar á kortlagningu og skiptingu svæðanna í 2-3 almenna jarðvegsflokka sem skilgreindir verða. 150 jarðvegssýni verða tekin á völdum völlum og hlutfall C og N mælt í þeim. Með aðgengi að gagnabönkum LBHÍ, sem heita IGLUD og Ýmir, er hægt að bera saman C-hlutfall úr sýnum við sambærileg svæði úr nágrenni vallanna. Þetta segir til um bindingu sem átt hefur sér stað á völlunum sjálfum síðan þeir voru gerðir.
Afurðir
a) Skortafla verður sett upp með kolefnisstöðu valla, eða kolefnispari þeirra, út frá landnýtingu.
b) Sundurliðun valla eftir 2-3 almennum jarðvegsflokkum sem skilgreindir verða í verkefninu.
c) Skýrsla um matsferlið og tillögur að aðferðafræði við sambærilegt mat annars staðar, á Norðurlöndunum eða jafnvel víðar.
d) Tilgreina votlendi sem hægt er að endurheimta.
e) Almennar leiðbeiningar um hvernig golfklúbbar geta gert einfaldar og ódýrar breytingar til að bæta kolefnisstöðu landnýtingar sinnar. Tillögur í liðum d og e skulu miðast við að fyrirbyggja neikvæð áhrif á upplifun kylfinga.
Heimildir
Bandaranayake, W., Y. L. Qian, W. J. Parton, D. S. Ojima, and R. F. Follett. 2003. Estimation of Soil Organic Carbon Changes in Turfgrass Systems Using the CENTURY Model. Agron. J. 95:558-563. doi:10.2134/agronj2003.5580
Grossi, N., Fontanelli, M., Garramone, E., Peruzzi, A., Raffaelli, M., Pirchio, M., Martelloni, L., Frasconi, C., Caturegli, L., Gaetani, M., Magni, S., McElroy, J., & Volterrani, M. 2016. Autonomous Mower Saves Energy and Improves Quality of Tall Fescue Lawn, HortTechnology hortte, 26(6), 825-830.
Pirchio, M., Fontanelli, M., Frasconi, C., Martelloni, L., Raffaelli, M., Peruzzi, A., Caturegli, L., Gaetani, M., Magni, S., Volterrani, M., & Grossi, N. 2018. Autonomous Rotary Mower versus Ordinary Reel Mower—Effects of Cutting Height and Nitrogen Rate on Manila Grass Turf Quality, HortTechnology hortte, 28(4), 509-515.
Ólafur Arnalds. 2018. Moldin og hlýnun jarðar https://www.visir.is/g/2018180629031?fbclid=IwAR3wK_liMloiGVy168iTGL-9a8ZOC0TdJrxWcCeOEDF04hSqPp_XVFx3k6U